Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði á öryggisráðstefnunni í München í Þýskalandi í dag að Þjóðverjar hafni aðkomu utanaðkomandi aðila að lýðræðinu í landinu.
Scholz beindi orðum sínum að J.D Vance, varaforseta Bandaríkjanna, sem í gær hvatti Evrópuríki til að breyta um stefnu í málefnum innflytjenda. Varaforsetinn sagði að neyðarástand væri að skapast í álfunni sem væri Evrópu sjálfri að kenna.
Vance gagnrýndi Þjóðverja fyrir að útiloka aðila sem lýsa yfir miklum áhyggjum af innflytjendamálum og hélt því fram að lýðræði byggist á þeirri meginreglu að rödd fólksins skipti mái.
„Arfleifð þjóðernissósíalisma hefur sameinað lýðræðisflokka Þýskalands um sameiginlega meginreglu, nefnilega að tryggja trausta varnarlínu gegn hægri öfgum,“ sagði Scholz.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, hafnaði einnig ummælum Vance, sem sakaði Evrópu um að hafa fjarlægst þau hefðbundnu gildi sem Evrópa hefði deilt með Bandaríkjamönnum.
„Ef ég skildi hann rétt, þá er hann að bera saman aðstæður í hluta Evrópu og þær sem eru undir einræðisstjórn,“ sagði Pistorius. Hann sagði að allir hefðu sína rödd og það ætti einnig við um stjórnmálaflokka Þýskalands sem gætu valið um það með hverjum þeir vinna. Hann sagði að það væri lýðræði.
Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, varði einnig stefnu Evrópu eftir ræðu Vance á ráðstefnunni.
„Tjáningarfrelsi er tryggt í Evrópu,“ sagði Barrot en Vance hélt því fram að það væri á undanhaldi í álfunni.
„Engum er skylt að tileinka sér fyrirmynd okkar, en enginn getur þröngvað sínu upp á okkur,“ sagði utanríkisráðherrann.