Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir íslensku ríkisstjórnina standa með sjálfstæðri Palestínu og lýsir „algjörri andstöðu“ við hugmyndir um þvingaða brottflutninga í landinu.
Þetta segir Kristrún í færslu á Facebook. Hún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra áttu fund með Mohammed Mustafa, forsætisráðherra Palestínu, í dag, en þær eru staddar á öryggisráðstefnunni sem nú fer fram í Munchen í Þýskalandi.
„Við komum á framfæri afstöðu Íslands um virðingu fyrir alþjóðalögum, stuðning við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínu (UNRWA) og algjöra andstöðu okkar við hugmyndir um þvingaða brottflutninga,“ segir í færslunni.
Vísar þar forsætisráðherrann að öllum líkindum til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem viðrað hefur tillögu um að flytja Palestínubúa frá Gasa til Egyptalands og Jórdaníu. Bandaríkin muni svo hefja uppbyggingu á svæðinu.
Vakti tillaga hans mikið uppnám hjá leiðtogum á Miðausturlöndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að hvers kyns þvingaðir brottflutningar Palestínumanna jafngildi þjóðernishreinsun.