Tveggja ára stúlka og móðir hennar létust af sárum sínum í dag eftir að hafa orðið fyrir bíl í München í Þýskalandi á fimmtudag. Eru þetta fyrstu fórnarlömb ákeyrslunnar, sem hefur vakið mikinn ugg í Þýskalandi.
Á fimmtudag ók maður bifreið inn í hóp fólks í München. Þar særðust 39 manns, þar á meðal börn, og eru nokkrir alvarlega særðir.
Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og skömmu seinna var greint frá því að um 24 ára gamlan karlmann frá Afganistan væri að ræða.
Lögreglan í Bæjarlandi hefur nú upplýst fjölmiðla um að tveggja ára barn og 37 ára kona, mæðgur, hafi látið lífið í árásinni.
„Því miður verðum við að staðfesta andlát tveggja í dag; tveggja ára barns og 37 ára móður hennar,“ segir Ludwig Waldinger við AFP.
Yfirvöld telja að maðurinn sem ók bílnum á fólkið hafi gert það viljandi.