Gæti hitt Pútín „mjög fljótlega“ til að ræða stríðið

„Engin tími settur en það gæti verið mjög fljótlega,“ sagði …
„Engin tími settur en það gæti verið mjög fljótlega,“ sagði Trump við blaðamenn í dag spurður út í það hvenær hann hugsaði sér að hitta Pútín. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist geta hitt Vladimír Pútin Rússlandsforseta „mjög fljótlega“ til að ræða hvernig megi binda enda á Úkraínustríðið.

Lét hann þessi orð falla skömmu eftir að greint var frá því að full­trú­ar Bandaríkja og Rúss­lands myndu funda í Sádi-Ar­ab­íu á næstu dög­um um hvernig binda mætti enda á stríðið. Úkraínu­menn verða ekki viðstadd­ir þær viðræður enda var þeim ekki boðið, að sögn BBC.

„Enginn tími settur en það gæti verið mjög fljótlega,“ sagði Trump við blaðamenn í dag spurður út í það hvenær hann hugsaði sér að hitta Pútín. Trump kvaðst vinna hörðum höndum við að ná friði í Úkraínu og sagðist trúa að bæði Pútín og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti vildu stöðva orrustuna.

Uppnám í Evrópu

Uppi er fótur og fit í Evrópu vegna áforma Trumps um Úkraínustríðið. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur boðað helstu leiðtoga álfunnar á neyðarfund vegna áforma Trumps og hefst fundurinn á morgun.

Á fund­in­um verða leiðtog­ar frá Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Póllandi, Ítal­íu, Spáni og Dan­mörku, sem myndu vera full­trú­ar Eystra­salts­ríkja og Skandi­nav­íu, að því er Reu­ters-frétta­stof­an grein­ir frá.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú á leiðinni til viðræðna í Sádi-Arabíu en Reuters hefur eftir honum að Úkraína og hin Evrópuríkin fái að taka þátt í „alvöru viðræðunum“ að því gefnu að þessar viðræður skili árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert