Ræða við Rússa í Sádi-Arabíu um endalok stríðsins

Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Miðausturlöndum.
Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. AFP

Fulltrúar Bandaríkjanna og Rússlands munu funda í Sádi-Arabíu á næstu dögum um hvernig binda megi enda á Úkraínustríðið. Úkraínumenn verða ekki viðstaddir.

Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, heldur til Sádi-Arabíu í dag ásamt þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, Michael Waltz.

Witkoff staðfestir þetta í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox News en þetta er í fyrsta sinn sem staðfest hefur verið að fulltrúar landanna muni hittast til að ræða um lok stríðsins.

BBC segir sínar heimildir herma að Úkraínumönnum hafi ekki verið boðið að sækja viðræður Rússa og Banaríkjamanna í Sádi-Arabíu.

Witkoff segir einnig í viðtalinu að fulltrúar frá Bandaríkjunum muni eiga viðræður við úkraínska ráðamenn.

Neyðarfundur í Evrópu

Á meðan fundur Bandaríkjamanna og Rússa fer fram í Sádi-Arabíu hittast leiðtogar Evrópuríkja á fundi í París á morgun sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur boðað til.

Umræðuefnið er ástandið í Úkraínu og ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að taka yfir friðarviðræður milli Úkraínu og Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert