Lavrov: Þátttaka Evrópu tilgangslaus

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segist ekki sjá neinn tilgang í því að evrópskir ráðamenn taki þátt í viðræðum um mögulegt vopnahlé í Úkraínu. Lavrov sakar evrópska leiðtoga um að vilja halda áfram stríðsrekstrinum í Úkraínu.

„Ég veit ekki hvað þeir eiga að gera við samningaborðið [...] ef þeir ætla að sitja við borðið í því augnamiði að halda stríðinu áfram, hvers vegna ættum við að bjóða þeim?“ sagði Lavrov á blaðamannafundi í Moskvu í dag.

Rússneski herinn réðst inn í Úkraínu samkvæmt fyrirskipun forsetans Vladimírs Pútíns í febrúar fyrir þremur árum. 

Bandarískir og rússneskir embættismenn munu hittast í Sádi-Arabíu í dag til að ræða bætt samskipti þjóðanna, mögulegt vopnahlé í Úkraínu og mögulegan leiðtogafund þeirra Pútíns Rússlandsforseta og Trumps Bandaríkjaforseta.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er væntanlegur til Sádi-Arabíu á morgun.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er væntanlegur til Sádi-Arabíu á morgun. AFP

Selenskí heimsækir Sádi-Arabíu á morgun

Sergí Nikiforov, talsmaður Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta, segir að Selenskí muni sækja Sádi-Arabíu heim á morgun.

Talsmaðurinn segir að um opinbera heimsókn sé að ræða sem hafi verið skipulögð með löngum fyrirvara.

Selenskí greindi frá ferðinni í liðinni viku án þess að gefa upp dagsetningu. Þá sagðist hann ekki ætla að funda með rússneskum og bandarískum embættismönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert