Meirihluti telur fjármagnið hverfa í spillingu

USAID hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið.
USAID hefur verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið. AFP

Tæplega 60% Bandaríkjanna eru þeirrar skoðunar að meirihluti þess fjármagns sem Bandaríkin veita í hjálparstarf og þróunaraðstoð rati ekki rétta leið. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem var gerð fyrir Financial Times.

Í könnuninni, sem var gerð af Public First, kveðst meirihluti svarenda vera þeirrar skoðunar að fjármagninu sé sóað í spillingu eða ýmis gjöld. Aðeins 12% svarenda voru á öndverðum meiði.

Niðurskurðarhnífnum beitt á USAID

Niðurstaðan er birt á sama tíma og bandaríska þróunarsamvinnustofnunin, USAID, er í kastljósi fjölmiðlanna en um 40 milljarðar dala renna til stofnunarinnar árlega. Hún var sett á laggirnar fyrir mörgum áratugum og hefur unnið að þróunarsamvinnu í yfir 100 löndum. USAID er á meðal þeirra stofnana sem Elon Musk, sem fer fyrir sérstakri stofnun sem á að hagræða í ríkisrekstri (DOGE), beinir nú sjónum sínum að.

Musk sagði skömmu eftir að hafa gengið til liðs við ríkisstjórn Trumps Bandaríkjaforseta að USAID yrði ein af þeim stofnunum sem tekið yrði á. Embættismenn á hans vegum hafa nú fryst samninga sem eru metnir á mörg hundruð milljónir dollara og sagt upp mörg þúsund starfsmönnum víða um heim.

Elon Musk í Hvíta húsinu ásamt Trump forseta.
Elon Musk í Hvíta húsinu ásamt Trump forseta. AFP

Stíga varlega á bremsuna

Sumir repúblikanar, sem eru fulltrúar ríkja þar sem bændur njóta góðs af stuðningi USAID, hafa gagnrýnt ákvörðun bandarískra stjórnvalda. Aftur á móti hafa háttsettir ráðgjafar demókrata lagt til að flokkurinn myndi stíga varlega á bremsuna þegar kemur að því að mótmæla þessum niðurskurði, í ljósi þess að hann nýtur stuðnings kjósenda.

David Axelrod, sem var náinn ráðgjafi Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, viðurkennir að demókratar væru að ganga í gildru með því að verja USAID. Þá sagði Rahm Emanuel, sem er fyrrverandi yfirmaður starfsliðs Hvíta hússins, að þetta væri ekki sverð til að falla á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert