Níu látnir eftir flóð og úrhelli í Bandaríkjunum

Mikil flóð eru í Kentucky eftir úrhellisrigningu um helgina.
Mikil flóð eru í Kentucky eftir úrhellisrigningu um helgina. BRETT CARLSEN

Í það minnsta níu manns hafa látist eftir úrhellisrigningu og hvassviðri í suðausturhluta Bandaríkjanna um helgina.

Vegir og hús hafa farið á kaf í vatnsveðrinu og hafa björgunaraðilar bjargað hundruðum manna sem hafa orðið innlyksa vegna flóða.

Verst hefur ástandið verið í Kentucky en Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, segir að átta manns hafi farist í ríkinu og gæti sú tala hækkað. Hann hvatti fólk til að vera ekki á ferðinni.

Í átta ríkjum Bandaríkjanna voru viðvaranir en þær voru í Kentucky, Georgíu, Alabama, Mississippi, Tennessee, Virginíu, Vestur-Virginíu og Norður-Karólínu. Gríðarlegt tjón varð í flestum þessara ríkja í september af völdum fellibylsins Helena. Hálf milljón manna var án rafmagns í ríkjunum í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert