Frans páfi var lagður inn á sjúkrahús með berkjubólgu fyrir fjórum dögum. Að sögn talsmanns Páfagarðs þarf páfi, sem er 88 ára gamall, að dvelja lengur á spítalanum en menn töldu í fyrstu.
Talsmaðurinn segir stöðuna flókna þegar kemur að heilsu páfans.
Öllum viðburðum til og með deginum í dag hefur verið aflýst en talsmaðurinn segir að vikulegt ávarp hans, sem á að fara fram á miðvikudag, falli einnig niður.
Páfagarður segir í yfirlýsingu að bakteríusýking hafi greinst í öndunarvegi Frans páfa sem hafi orðið til þess að meðhöndla verði veikindin með öðrum hætti.
„Allar þær greiningar sem hafa verið framkvæmdar þar til nú gefa til kynna flókna heilsufarsmynd sem kallar á frekari sjúkrahúsdvöl.“
Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar innan Páfagarðs segir að Frans páfi hljóti súrefnismeðferð.
Annar heimildarmaður hafði sagt að það væri ekkert til að hafa áhyggjur af eftir að páfinn var lagður inn á Gemelli-sjúkrahúsið í Róm á föstudag.
Matteo Bruni, talsmaður Páfagarðs, sagði við blaðamenn í dag að páfinn væri brattur.
Fréttaskýrendur hafa aftur á móti áhyggjur af heilsufari páfans sem hefur glímt við heilsubrest á undanförnum árum.