Trump hótar gagnkvæmum tollum

Donald Trump geisar mjög á X þar sem hann birti …
Donald Trump geisar mjög á X þar sem hann birti nú fyrir skömmu harðorðan tollapistil. AFP

„Ég hef ákveðið, með sanngirni að leiðarljósi, að ég muni leggja á gagnkvæma tolla í þeim skilningi að sama hvað önnur ríki leggja á Bandaríkin af tollum fá þau sömu tolla á sínar vörur,“ skrifar Donald Trump Bandaríkjaforseti á samfélagsmiðilinn X nú fyrir skömmu.

Kveðst forsetinn leggja virðisaukaskatt á innfluttar vörur að jöfnu við tolla, virðisaukaskatturinn sé enn harðari refsing ef eitthvað. „Að senda varning, vöru eða eitthvað, hverju nafni sem nefnist, gegnum annað land í því augnamiði að skaða Bandaríkin með óheiðarleikann að vopni verður ekki liðið,“ skrifar hann í framhaldinu.

Þá boðar hann enn fremur sérstakt gjald til höfuðs niðurgreiðslum annarra ríkja sem inntar séu af hendi til framleiðenda í þeim tilgangi að hagnast á Bandaríkin. „Gjöld verða tekin fyrir ópeningalega tolla og viðskiptahöft sem sum lönd leggja á til þess að halda okkar framleiðslu utan þeirra yfirráðasvæðis eða banna bandarísk fyrirtæki á sínu yfirráðasvæði.“

Rétt mörgu ríkinu hjálparhönd

Kveður Trump einfalt mál að meta tolla, sem ekki byggist á fégreiðslum, til fjár. Slíkt sé sanngjarnt í garð allra, engum ríkjum sé stætt á að kvarta. Þyki stjórnvöldum einhvers ríkis sem svo að Bandaríkin séu að taka til sín of háar tollgreiðslur þurfi þau ekki að gera annað en að draga úr eða leggja af tolla á bandarískar vörur.

„Þetta fyrirkomulag mun endurvekja sanngirni og hagnað í áður flóknu og rangsnúnu kerfi viðskipta. Ameríka hefur rétt mörgu ríkinu hjálparhönd gegnum árin og kostað þar miklu til. Nú er tímabært að þessi ríki rifji það upp og sýni okkur sanngirni – leikurinn verði jafn fyrir vinnandi Ameríkana. Ég hef fyrirskipað utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, auk viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna, að gera það sem þörf er á til að koma á gagnkvæmni í viðskiptakerfi okkar!“ skrifar forsetinn á X um nýjustu vendingar í tollværingum þeim er hann hóf skömmu eftir embættistöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert