Svíar útiloka ekki að friðargæslulið verði sent til Úkraínu að sögn Mariu Malmer Stengard, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Þetta segir Stengard í viðtali við sænska ríkisútvarpið en hún segir að fyrst þurfi að semja um sanngjarnan og sjálfbæran frið.
„Þegar við höfum náð slíkum friði verðum við að tryggja að hægt sé að viðhalda honum. Nú verðum við fyrst að semja um sanngjarnan og sjálfbæran frið sem virðir alþjóðalög, sem virðir Úkraínu og tryggir umfram allt að Rússland geti ekki einfaldlega dregið sig til baka og byggt upp nýjar hersveitir og ráðist á Úkraínu eða annað land innan fárra ára,“ segir Stengard.
Ummæli sænska utanríkisráðherrans koma eftir að Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í gær að hann sé reiðubúinn að senda breska hermenn til Úkraínu til að fylgja eftir hvers konar samkomulagi um frið.