Vilja kæra Google vegna „Ameríkuflóa“

Google hefur sagt að notendur Maps í Mexíkó muni áfram …
Google hefur sagt að notendur Maps í Mexíkó muni áfram sjá nafnið „Mexíkóflói“ en fólk sem er utan Bandaríkjanna og Mexíkó, til dæmis á Íslandi, muni sjá bæði nöfnin og er Ameríkuflói þá innan sviga. AFP/Drew Angerer

Stjórnvöld í Mexíkó hyggjast kæra bandaríska fyrirtækið Google fyrir að breyta nafni Mexíkóflóa í „Ameríkuflóa“ í forritinu Google Maps. 

Þetta sagði Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, í dag.

Nafnabreyting flóans í forritinu er til komin vegna tilskipunar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Google segir að fyrirtækið hafi í gegnum tíðina haft það að reglu að breyta nöfnum í forritinu Google Maps þegar ríkisstjórnin óskar eftir því. 

Munu ekki samþykkja breytinguna undir neinum kringumstæðum

Sheinbaum segir að ríkisstjórn hennar hafi skrifað Google bréf vegna málsins þar sem því er haldið fram að nafnabreytingin eigi aðeins við þann hluta flóans sem tilheyri Bandaríkjunum.

Þar segir jafnframt að stjórnvöld í Mexíkó samþykki ekki undir neinum kringumstæðum að endurnefna landsvæði sem nær yfir hluta af yfirráðasvæði þess og er innan lögsögu þess. 

„Við munum bíða eftir viðbrögðum Google og ef ekki, munum við fara dómstólaleiðina,“ sagði Sheinbaum í dag. 

Google hefur sagt að notendur Maps í Mexíkó muni áfram sjá nafnið „Mexíkóflói“ en fólk sem er utan Bandaríkjanna og Mexíkó, til dæmis á Íslandi, muni sjá bæði nöfnin og er Ameríkuflói þá innan sviga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert