Enn er ekki ljóst hvað fór úrskeiðis þegar CRJ-900-farþegaþota Delta Air Lines, í flugi DL4819 frá Minneapolis í Bandaríkjunum til Toronto í Kanada, endaði á hvolfi við lendinguna í Toronto upp úr klukkan 14 að staðartíma í gær, mánudag.
Um borð voru 80 manns, 76 farþegar og fjögurra manna áhöfn, og þykir ganga kraftaverki næst að minni háttar meiðsli 18 manns voru allt líkamstjónið er af hlaust. Kanadískir og fleiri fjölmiðlar birta hins vegar í dag vangaveltur sjónarvotta og sérfræðinga um hvernig í ósköpunum það gat gerst að vélin, sem kanadísku Bombardier-verksmiðjurnar hönnuðu og smíðuðu, gat tekið þessa kollhnís við lendinguna.
Steytti hjólabúnaður hennar á hindrun á flugbrautinni eða feykti snörp vindhviða vélinni til með þessum afleiðingum?
„Þetta var mjög aflþrungið atvik, hávaðinn þegar stál og steinsteypa mættust var ærandi,“ segir farþeginn Pete Carlson við CBC-sjónvarpsstöðina og bætir því við að þau kona hans hafi hangið föst í öryggisbeltum sínum í öfugri stöðu, með höfuðin niður á við, og svo skollið niður á loftklæðningu vélarinnar þegar þeim tókst að losa um beltin.
Dan Ronan, blaða- og flugmaður, sem er vel að sér um CRJ-900-vélar og ræðir við breska ríkisútvarpið BBC, og segir útlit fyrir að vélin hafi skrikað til á flugbrautinni rétt eftir að hjól hennar snertu undirlagið og þar með tekið dýfu til hliðar og hægri vængur hennar lent á einhverri hindrun með þeim afleiðingum að hún valt og endaði að lokum alveg á hvolfi.
Flugfélagið hefur lofað frekari upplýsingum í fyllingu tímans og stjórnendur flugvallarins greina frá því að mikil snjókoma hafi verið á vellinum áður en vélin kom inn til lendingar. Hins vegar hafi verið stytt upp þegar hún hóf aðflug.
Marco Chan, háskólakennari og fyrrverandi atvinnuflugmaður, segir augljóst að vélin hafi fengið á sig slagsíðu til hægri áður en hún valt eftir það sem leit út fyrir að hafa verið nokkuð harkaleg lending eftir mjög öra hæðarlækkun.
„Að allir lifðu er með ólíkindum,“ segir Ronan við BBC og bendir á að mikil mildi hafi verið að skrokkur flugvélarinnar hélt við þau högg sem hann varð fyrir. Eins benti hann á vandlega hönnuð farþegasæti sem hann segir eiga að geta þolað lendingu, eða hrap, sem orsakar allt að sextánfalt högg miðað við þyngdarafl jarðar.
Fleiri sérfræðingar þökkuðu ríkulegum öryggisþáttum CRJ-900-vélanna að ekki fór verr. Þannig greindi David Soucie, greinandi CNN-sjónvarpsstöðvarinnar og fyrrverandi eftirlitsmaður bandaríska flugferðaeftirlitsins FAA, frá því að vélin hefði brotnað í sundur eins og hún var hönnuð til að gera, vængirnir hefðu brotnað af fyrst og þannig hlíft skrokknum sem fyrir vikið hafi haldist heill.