Dómsmálaráðherra Brasilíu hefur ákært Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta landsins, fyrir tilraun til valdaráns í landinu eftir að hann beið lægri hlut í forsetakosningunum árið 2022. Alls hafa 33 til viðbótar verið ákærðir í tengslum við málið.
Ákæran á hendur Bolsonaro, sem er 69 ára, og samverkamönnum hans er í fimm liðum. Hún snýr í meginatriðum að því að þeir hafi reynt að koma í veg fyrir að Luiz Inacio Lula da Silva gæti tekið við sem forseti eftir ansi harða kosningabaráttu.
Paulo Gonet Branco, dómsmálaráðherra Brasilíu, lagði ákæru fram með formlegum hætti hjá hæstarétti landsins, en ákæran byggir á handritum, stafrænum gögnum, gögnum úr töflureiknum og smáskilaboðum. Dómsmálaráðuneytið tekur fram að gögnin sýni að Bolsonaro og samverkamenn hans hafi gert skipulagða atlögu á hið lýðræðislega ferli.
Gögnin sýni í smáatriðum það samsæri sem hafi verið sett á laggirnar og beint gegn lýðræðislegum stofnunum landsins.
Þeir eru meðal annars ákærðir fyrir glæpi skipulagðra og vopnaðra glæpasamtaka sem Bolsonaro og varaforsetaefni hans, Walter Braga Netto, hafi leitt.
„Þeir gerðu tilraun, í samstarfi við aðra einstaklinga, þar á meðal óbreytta borgara og starfsmenn hersins, til að koma í veg fyrir, á skipulagðan máta, að niðurstöður forsetakosninganna 2022 myndu raungerast,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.
Ákæruvaldið byggir málið á lögregluskýrslu sem telur yfir 800 blaðsíður. En skýrslan var birt í fyrra í kjölfar rannsóknar sem stóð yfir í tvö ár. Það kom fram að Bolsonaro hefði gert sér fulla grein fyrir samsærinu og tekið þátt í því í þeim tilgangi að halda völdum.
Bolsonaro hefur aftur á móti neitað sök. Hann kveðst vera fórnarlamb ofsókna.
Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins er tekið fram að upphaf samsærisins megi rekja til ársins 2021 þegar gerðar voru kerfisbundnar árásir á rafræna kjörstaði með opinberum yfirlýsingum og í gegnum netið.
Í október 2022, þegar seinni umferð forsetakosninganna fór fram, voru öryggissveitir sendar á vettvang til að koma í veg fyrir að kjósendur gætu kosið fulltrúa stjórnarandstöðunnar.
Þeir sem eru sagðir bera ábyrgð á samsærinu eru sagðir hafa ýtt undir ofbeldisverk og skemmdarverk sem voru unnin 8. janúar 2023 þegar stuðningsmenn Bolsonaro réðust inn í forsetahöllina, þinghúsið og húsnæði hæstaréttar landsins í höfuðborginni Brasilíu.
Þá hafa rannsakendur sýnt fram á samsæri til að ráða Lula, varaforsetann Geraldo Alckmin og hátt settan dómara af dögum. Þetta hafi verið gert með samþykki Bolsonaro.
Bolsonaro var staddur í Bandaríkjunum þegar óeirðirnar áttu sér stað. Hann vísaði öllum ásökunum á bug í viðtali við CNN í Brasilíu.
„Hvaða tilraun til valdaráns er verið að tala um? Að ég hafi verið í Orlando, í Disney, með Mikka Mús, Guffa og Andrési Önd, að skipuleggja valdarán hér í Brasilíu?“
Þegar hann var spurður hvað myndi gerast yrði hann handtekinn sagði Bolsonaro: „Ég fer í fangelsi, ég mun ekki yfirgefa Brasilíu. Ég er ekki að fara flýja Brasilíu.“