Hrósar Trump og segir Selenskí aumkunarverðan

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, skefur ekki af hrósi sínu í garð Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er hins vegar að sögn utanríkisráðherrans „aumkunarverður“.

Ummælin lét Lavrov falla á blaðamannafundi fyrir skömmu.

Trump sjálfstæður stjórnmálamaður

„[Trump] er algjörlega sjálfstæður stjórnmálamaður. Þar að auki er hann manneskja sem er vanur því að tala hreinskilnislega. Þannig fólk leynir vanalega ekki sínum skoðunum um aumkunarverða einstaklinga eins og hr. Selenskí,“ segir Lavrov.

Trump fékk einnig hrós fyrir ummæli sín þar sem hann kennir tilraunum til að koma Úkraínu inn í Atlantshafsbandalagið um þau átök sem hafa átt sér stað í landinu.

Einnig hefur Trump ítrekað kennt forvera sínum Joe Biden um átökin og sagt að þau hefðu aldrei byrjað hefði Trump sjálfur verið við völd á þeim tíma.

Er það skoðun Lavrovs að Trump sé fyrsti og eini vestræni leiðtoginn sem hefur opinberlega, og með skýrum hætti, sagt að ein af rótum átakanna sé vilji síðustu ríkisstjórnar Bandaríkjanna til að fá Úkraínu í Atlantshafsbandalagið.

Volodimír Selenskí og Donald Trump.
Volodimír Selenskí og Donald Trump. AFP

Koma sólarhring eftir fund forsætisráðherranna

Ummæli Lavrovs koma tæpum sólarhring eftir fund hans með utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, í Sádí-Arabíu þar sem samkomulag náðist um að semja um stríðslok á milli Rússlands og Úkraínu.

Úkraínu var ekki boðið að taka þátt í friðarviðræðunum og hefur Selenskí sagt að ekki verði undirritaður samningur um frið án aðkomu Úkraínu.

Sérstakur erindreki Trumps í Úkraínu, Keith Kellogg, var mættur til Kænugarðs í morgun og mun funda þar í dag með Selenskí og öðrum embættismönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert