Ekkert virðist ætla koma í veg fyrir það að Donald Trump Bandaríkjaforseti leggi háa tolla á Mexíkó og Kanada á morgun. Fyrr í kvöld tilkynnti hann svo að tollar á allar innfluttar vörur frá Kína myndu tvöfaldast.
Trump hafði áður kynnt 25% tolla á vörur frá Kanada og Mexíkó þar sem hann sagði þjóðirnar ekki gera nóg til að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning fólks og fíkniefna til Bandaríkjanna.
En í byrjun síðasta mánaðar ákvað hann að fresta gildistöku þeirra um 30 daga. Sumir höfðu bundið vonir við það að þjóðunum myndi takast að semja um ákveðin atriði á þessum tíma til að koma í veg fyrir tollastríð en fyrr í kvöld tilkynnti Trump að tollarnir tækju gildi á morgun.
Hann sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að það væri „ekkert rými eftir“ fyrir þjóðirnar til að koma í veg fyrir tollana.
„Það sem þeir þurfa að gera er að byggja bílaverksmiðjur sínar og hreinlega annað í Bandaríkjunum, og í því tilfelli eru þeir ekki með neina tolla,“ sagði Trump.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði að kanadísk stjórnvöld myndu svara í sömu mynt ef tollarnir tækju gildi á morgun.
Trump tilkynnti einnig að hann myndi hækka tolla á vörur frá Kína um 20% en áður hafði hann sagt að hækkunin yrði 10%. Kínversk stjórnvöld hafa áður kynnt að þau hyggist svara með hefndartollum.