Ráðamenn í Hvíta húsinu rifust við Musk

Frá vinstri: Elon Musk, Sean Duffy, Marco Rubio og Donald …
Frá vinstri: Elon Musk, Sean Duffy, Marco Rubio og Donald Trump. Samsett mynd/AFP

New York Times greinir frá því að Elon Musk, ríkasti maður heims, hafi lent saman við Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sean Duffy samgönguráðherra á ríkisstjórnarfundi í gær, fimmtudag.

Musk leiðir aðhalds- og skilvirknisstofnunina DOGE í aðgerðum til að skera niður kostnað og fækka störfum í öllum deildum ríkisins.

Að því er fram kemur í frétt New York Times skammaði Musk Rubio fyrir lítinn niðurskurð þess síðarnefnda í ráðuneyti sínu. Musk hafi sakað Rubio um hafa engan rekið á fyrstu 45 dögum nýrrar ríkisstjórnar Donalds Trumps.

Rubio sagði á móti að 1.500 embættismenn utanríkisráðuneytisins hefðu samþykkt starfslokasamninga sína og spurði kaldhæðnislega hvort hann ætti að ráða þá aftur til þess eins að reka þá aftur á stórbrotnari hátt.

Elon Musk.
Elon Musk. AFP/Saul Loeb

Sagði Duffy ásaka sig um lygar

Í öðru rifrildi á sama fundi sakaði Sean Duffy DOGE um að hafa reynt að reka mikilvæga flugumferðarstjóra á sama tíma og hann hafi tekist á við eftirmála nokkurra flugslysa sem urðu með skömmu millibili.

Viðbrögð Musks hafi verið að Duffy væri að ásaka hann um lygar.

Að sögn heimildarmanna New York Times steig Donald Trump Bandaríkjaforseti inn í rifrildið og lagði til að héðan í frá yrðu flugumferðarstjórarnir ráðnir úr röðum „snillinganna“ sem læra í Massachusetts Institute of Technology (MIT).

Skorið niður með skurðarhnífi í stað exi

Er Trump var spurður á blaðamannafundi í dag um meinta deilu Musks við Rubio og Duffy vísaði hann henni á bug og sagði: „Enginn árekstur. Ég var þarna,“ er haft eftir honum í frétt AFP um málið.

Enn fremur sagði hann að Musk og Rubio stæðu sig báðir frábærlega og næðu „stórkostlega vel saman“.

Eftir fundinn í Hvíta húsinu tilkynnti Trump að áfram yrði skorið niður í ríkisrekstri en nú með „skurðarhnífi“ frekar en með „exi“. Gefur það til kynna að hann hafi sett einhverjar hömlur á niðurskurð Musks.

Frá því að Trump tók við embætti forseta hefur ríkisstjórn hans rekið eða tilkynnt um uppsagnir tugþúsunda ríkisstarfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert