Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn í dag grunaður um manndráp í tengslum við skipsskaða í Norðursjó sem olli miklum eldsvoða þar sem eins skipverja er enn saknað og er hann talinn vera látinn.
Sá grunaði er sagður vera skipstjóri á Solong-fraktskipinu.
Síðdegis í gær barst tilkynning um að olíuflutningaskipið og fraktskip hefðu skollið saman austur af ströndum Englands. Kviknaði í báðum skipunum og slösuðust fjölmargir skipverjar.
Breska strandgæslan var ræst út og bjargaði hún 36 af 37 skipverjum í aðgerðum sínum í gær.
Eins skipverja fraktskipsins er enn saknað en umfangsmikil leit var gerð að honum í gær. Leit var hætt í gærkvöldi og er hann talinn af.
Breska lögreglan stóð fyrir handtökunni en hún vildi lítið gefa upp um hinn grunaða.
„Við höfum handtekið 59 ára mann sem grunaður er um stórfellt gáleysi og manndráp í tengslum við áreksturinn,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Sjóslysarannsóknardeild á vegum bresku ríkisstjórnarinnar hefur hafið rannsókn á slysinu og mun hún ákvarða næstu skref. Óttast er að lífríki svæðisins og sjávardýr hafi orðið fyrir skaða.