Búið að frelsa 190 gísla

Herinn í Pakistan hefur náð að frelsa 190 gísla.
Herinn í Pakistan hefur náð að frelsa 190 gísla. AFP

Herinn í Pakistan hefur náð að frelsa 190 lestarfarþega sem vígamenn tóku í gíslingu í Balochistan-héraði í suðvesturhluta Pakistan í gær.

Um 450 farþegar voru í lestinni þegar vopnaðir vígamenn særðu lestarstjórann í árás.

„Hingað til hefur 190 farþegum verið bjargað og 30 hryðjuverkamenn hafa verið drepnir. Vegna nærveru kvenna og barna er ýtrustu varkárni gætt,“ hafði AFP-fréttaveitan eftir yfirmanni öryggismála í Pakistan.

Þau segja aðgerðir um að frelsa gíslana haldi áfram en árásir aðskilnaðarhópa sem saka utanaðkomandi aðila um að ræna náttúruauðlindum í Balochistan, sem á landamæri að Afganistan og Íran, hafa aukist mikið á undanförnum árum.

„Upplýsingar benda til þess að einhverjir vígamenn hafi flúið og tekið óþekktan fjölda gísla inn á fjallasvæðin í nágrenninu,“ segir öryggisfulltrúi á staðnum við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert