Hinn borgaralegi Demokraatit er sigurvegari í grænlensku þingkosningunum sem fram fóru í gær en þegar talning atkvæða lauk á sjötta tímanum í morgun hlaut flokkurinn 29,9 prósent atkvæða en í kosningum fyrir fjórum árum fékk flokkurinn rúmlega 9 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn Nalaeraq, sem vill að Grænlendingar sækist eftir sjálfstæði sem fyrst og vill auka samstarf við Bandaríkin, hlaut einnig góða kosningu en hann fékk 24,5 prósent atkvæða og tvöfaldaði þar með fylgi sitt frá síðustu kosningum.
Stjórnarflokkarnir Inuit Ataqatigiit og Siumut, sem báðir eru vinstri flokkar, töpuðu töluverðu fylgi. Inuit Ataqatigiit fékk 21 prósent, samanborið við 36 prósent fyrir fjórum árum og Siumut hlaut 14,7 prósent en í kosningunum 2001 hlaut flokkurinn 29,5 prósent. Báðir flokkar hafa talað fyrir því að bíða með að fram á sjálfstæði þar til eyjan er fjárhagslega sjálfstæð.
Frjálslyndi flokkurinn Atassut fékk 7,3 prósent og Quelleq flokkurinn sem bauð sig fram í fyrsta sinn hlaut aðeins 1,1 prósent atkvæða.
Á grænlenska þjóðþinginu, Inatsisartut, situr 31 þingmaður og því þarf 16 til að mynda ríkisstjórn.
Aldrei áður hafa kosningar á Grænlandi vakið eins mikla athygli heimsins í kjölfar yfirlýsingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem hefur heitið því að Bandaríkin eignist Grænland með einum eða öðrum hætti. Trump bauð Grænlendingum á dögunum að verða hluti af Bandaríkjunum og hét því að gera Grænlendinga ríka.
Í nýjustu skoðanakönnun um málið kom fram að 85 prósent Grænlendinga reu andvíg hugmyndum Trumps.
„Demókratar eru opnir fyrir viðræðum við alla flokka og sækjast eftir einingu. Sérstaklega með það sem er að gerast í heiminum,“ sagði hinn 33 ára gamli Jens–Frederik Nielsen, leiðtogi flokksins, í viðtali við grænlenska ríkissjónvarpið þegar úrslitin lágu ljós fyrir.
„Við bjuggumst ekki við þessari niðurstöðu í kosningunum en við erum vitskuld mjög ánægð,“ bætti hann við.
Við virðum niðurstöðu kosninganna,“ sagði fráfarandi forsætisráðherrann Mute Egede, sem leiðir vinstri-græna Inuit Ataqatigiit flokkinn, í samtali við grænlenska ríkissjónvarpið.
Íbúar Grænlands, sem eru 90 prósent Inúítar, segjast vera orðnir þreyttir á að vera meðhöndlaðir eins og annars flokks borgarar af fyrrverandi nýlenduveldi sínu Danmörku, sem þeir saka um að hafa í gegnum tíðina bælt menningu þeirra, framkvæmt þvingaða ófrjósemisaðgerðir og fjarlægt börn frá fjölskyldum þeirra.
Kjörsókn var 67,8 prósent. Á kjörskrá voru 40,369 og greiddu 28,620 atkvæði.