„Ég sagðist munu vernda ykkur og ég mun bera ábyrgð“

Sjúkrabíllinn sem sagður er hafa flutt Duterte frá flugvellinum.
Sjúkrabíllinn sem sagður er hafa flutt Duterte frá flugvellinum. AFP/Bas Czerwinski

Rodrigo Duterte, fyrrverandi forseti Filippseyja, sagðist „ábyrgur“ þegar Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hneppti hann í gæsluvarðhald í dag. Hann er sakaður um glæpi gegn mann­kyn­inu.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) í Haag telur nægar forsendur til að ákæra Duterte fyrir morð og glæpi gegn mannkyninu og telur hann samsekan í glæpum sem urðu í stríði Duterte gegn fíkni­efn­unum – sem réttindasamtök áætla að hafi drepið tugi þúsunda.

„Það var ég sem leiddi löggæslu okkar og her. Ég sagðist munu vernda ykkur og ég mun bera ábyrgð á þessu öllu,“ sagði Duterte við Filippseyinga í myndbandi sem deilt var á Facebook-síðum hans og náins ráðgjafa þegar hann var við það að lenda í Haag.

„Þetta er mannrán“

„Ég hef verið að segja lögreglunni og hernum að þetta væri starf mitt og ég beri ábyrgð,“ sagði hinn 79 ára gamli, fyrsti fyrrverandi þjóðhöfðingi Asíu til að verða ákærður hjá ICC.

Dómstóllinn úrskurðar um verstu glæpi heimsins – þar á meðal stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð. Talsmaður staðfesti að Duterte væri í haldi dómstólsins eftir að hafa komið til Rotterdam með einkaþotu.

Ökutæki sem Duterte var talinn ferðast með ók inn í fangageymslur ICC fram hjá tugum stuðningsmanna, en sumir hrópuðu „komið með hann aftur“ og veifuðu þjóðfánanum.

„Réttlátt ferli hefur ekki átt sér stað,“ sagði umönnunaraðilinn Duds Quibini.

„Þetta er mannrán. Þeir settu hann bara í flugvél og komu með hann hingað.“

„Enginn er yfir lögin hafinn“

Miðstöðin hvar Duterte verður haldið þar til hann kemur fyrst fyrir dómstóla – líklega á næstu dögum – býður hverjum og einum fanga upp á einkaklefa með tölvu til að vinna í máli sínu og æfingasvæði utandyra.

Gilbert Andres, lögfræðingur fórnarlamba fíkniefnastríðsins, sagði:

„Skjólstæðingar mínir eru mjög þakklátir Guði, vegna þess að bænum þeirra hefur verið svarað.

Handtaka Rodrigo Duterte er frábært fordæmi fyrir alþjóðleg refsimál. Hún sýnir að enginn er yfir lögin hafinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert