Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði eftir fund með leiðtogum Evrópu og NATO í dag að herforingjar muni hittast á fundi í Bretlandi á fimmtudag til að ræða áætlanir um friðargæslulið í Úkraínu til að vernda hvers kyns vopnahlé.
„Við samþykktum að flýta fyrir verklegu starfi okkar til að styðja við hugsanlegan samning,“ sagði Starmer, sem átti rafrænan fund með 25 leiðtogum í dag.
„Við vorum sammála um að nú sé boltinn hjá Rússlandi. Pútín forseti verður að sanna að honum sé alvara með friði og skrifa undir vopnahlé á jöfnum forsendum,“ segir hann.
Starmer segir að þöggun og tafir Rússa vegna vopnahléstillögu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og áframhaldandi villimannslegar árásir Rússa á Úkraínu gangi algjörlega gegn yfirlýstum friðarvilja Vladimírs Pútsíns Rússlandsforseta.
Pútín kveðst ekki slá út af borðinu tillögu Bandaríkjanna um 30 daga vopnahlé, sem Úkraínumenn hafa þegar samþykkt. Hann segir þó að enn sé fjölda spurninga ósvarað og að leysa þurfi alvarleg mál.