Tollahækkanir Trumps tóku gildi á miðnætti

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

10 prósenta lágmarkstollar á flestallar innfluttar vörur til Bandaríkjanna tóku gildi á miðnætti.

Á miðvikudaginn munu enn hærri tollar taka í gildi fyrir 60 viðskiptaríki landsins, þar á meðal fyrir lönd Evrópusambandsins, Japan og Kína.

Meðal tolla sem taka í gildi í næstu viku er 34% tollur á innflutning frá Kína. Kínverjar tilkynntu í gærmorgun að lagður verði jafn hár tollur á bandarískar vörur sem svar við nýju tollastefnunni.

Banda­rísk hluta­bréf lækkuðu veru­lega við opn­un markaða í gær en einnig lækkuðu hlutabréf í Evrópu og Asíu.

Hagfræðingar hafa varað við því að tollarnir gætu dregið úr hagvexti og ýtt undir verðbólgu.

Víðtækustu tollarnir frá kreppunni miklu

Nýju alþjóðlegu tollar Trumps eru „víðtækustu tollahækkanirnar síðan Smoot-Hawley-tollalögin voru sett árið 1930, en þau lög eru best þekkt fyrir að hafa sett af stað alþjóðlegt viðskiptastríð og dýpkað kreppuna miklu,“ sagði í tilkynningu CSIS (Center for Strategic and International Studies).

Oxford Economics áætlar að þessar aðgerðir muni hækka meðaltal tolla í Bandaríkjunum í 24 prósent „sem er jafnvel hærra en sást á fjórða áratug síðustu aldar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert