Angela Rayner, húsnæðis- og sveitarstjórnarráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, hefur kallað út herinn til hreinsa burt um 17 þúsund tonn af sorpi sem safnast hefur upp á götum Birmingham, eftir að sorphirðustarfsmenn fóru í verkfall fyrir mánuði síðan. The Telegraph greinir frá.
Það er ekki bara óþrifnaðurinn af sorpinu sem veldur vandræðum, heldur hefur hækkandi hiti gert það að verkum að lyktin er orðin svo óbærileg að fólk jafnvel kastar upp þegar það fer út. Þá laðar sorpið að sér rottur, refi og skordýr. Ástandið er orðið það slæmt að það er talið ógna heilsu borgarbúa.
Þykir málið vera hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórn Verkamannaflokksins, þar sem borginni sé jafnframt stýrt af flokknum. En verkalýðsfélagið Unite hafnaði í síðustu viku tilraun Rayner til að koma á samningum við sorphirðufólk. Því hefur verið brugðið á það ráð að kalla út herinn.
Stjórnarandstaðan heldur því fram að það sé til merkis um vaxandi örvæntingu ríkisstjórnarinnar að fá herinn til aðstoðar. Nú sé kominn tími til að ríkisstjórnin standi upp gegn verkalýðsfélögunum.
Ótímabundnar verkfallsaðgerðir sorphirðufólks hófust þann 11. mars síðastliðinn.