Einn 70 milljóna bíll á dag

Fákar á borð við hinn 720 hestafla Ferrari F8 eru …
Fákar á borð við hinn 720 hestafla Ferrari F8 eru orðnir algeng sjón á norskum vegum nú til dags. Ekki er mikið meira en áratugur síðan aðeins einn og einn slíkur færleikur sást þar, en auðlegð þjóðarinnar er breytt, gjörbreytt. Ljósmynd/Wikipedia.org/Alexander Migi

„Nú koma margir inn í umboðið hjá mér og segjast undrast alla þessa sportbíla í Noregi,“ segir Olav Medhus í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, handhafi umboðs þar í landi fyrir bifreiðamerkin Ferrari, McLaren, Lamborghini og Bentley.

„Það sem er hérna núna er þó bara það sem selst á tveimur vikum,“ bætir hann við.

Medhus selur að meðaltali eina sportbifreið hvern virkan dag með verðmiða á bilinu fimm til sex milljónir norskra króna, jafnvirði 63 til 76 milljóna íslenskra króna. Það gera um 300 ofursportbíla á ári – og það er bara frá umboðinu hans.

Gjáin milli vellauðugra Norðmanna annars vegar og hefðbundinna launaþræla hins vegar breikkar nú ört hjá bænda- og fiskveiðaþjóðinni sem á nokkrum áratugum varð ríkust í heimi eftir að hafa uppgötvað auðugar lindir olíu og gass undir botni Norðursjávarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert