Fjórir blaðamenn sem fjölluðu ítarlega um Alexei Navalní, helsta andstæðing Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, hafa verið dæmdir í tæplega sex ára fangelsi.
Navalní lést í fanganýlendu fyrir norðan heimskautsbaug í febrúar á síðasta ári en þar var hann að afplána nítján ára fangelsisdóm.
Blaðamennirnir fjórir sem voru sakfelldir eru sagðir hafa tengst Navalní og segja rússnesk stjórnvöld að þeir hafi tengst „öfgahópi“. Höfðu þeir allir starfað við blaðamennsku á alþjóðlegum miðlum líkt og Reuters og Associated Press.
Ein þeirra sakfelldu heitir Antonía Kravtsova en hún hafði fjallað ítarlega um mál Navalnís í tvö ár áður en hann lést. Hún tók viðtal við Navalní í gegnum fjarfundabúnað aðeins tveimur dögum áður en hann lést.
Tveir aðrir blaðamenn, Konstanín Gabov og Sergei Karelín, eru sagðir hafa unnið við myndbandsgerð fyrir samfélagsmiðla Navalnís.
Mikil mótmæli voru fyrir utan dómshúsið í Moskvu í dag þar sem dómurinn var kveðinn upp. Réttarhöldin fóru fram fyrir lokuðum dyrum.
Eftir að dómurinn var kveðinn upp sendu fjórmenningarnir frá sér yfirlýsingu sem var birt í sjálfstæðum fjölmiðlum í Rússlandi. Lýstu þeir áhyggjum af fjölmiðlafrelsinu í Rússlandi.