Störfuðu á sömu hæð og greindust öll með heilaæxli

Mynd úr safni. Starfsmennirnir störfuðu allir á fimmtu hæð sjúkrahússins.
Mynd úr safni. Starfsmennirnir störfuðu allir á fimmtu hæð sjúkrahússins. AFP/Ívan Samojlov

Sex starfsmenn sjúkrahúss í Boston í Massachusetts hafa greinst með góðkynja heilaæxli.

Starfsmennirnir starfa allir á sömu hæð sjúkrastofnunarinnar Newton-Wellesley. Stjórnendur fullyrða þó í yfirlýsingu til sjúklinga að engar rannsóknir hafi sýnt fram á að eitthvað í umhverfi vinnustaðarins hafi orsakað veikindin.

Samtök hjúkrunarfræðinga í Massachusetts gagnrýndu í síðustu viku úttektina sem sjúkrahúsið vísaði til að hefðu útilokað umhverfisþættina, og sögðu hana ekki yfirgripsmikla. 

Sjúkrahúsið hefur ítrekað að heilsa starfsmanna og sjúklinga séu algjört forgangsmál í rekstri stofnunarinnar.

NBC greinir frá.

Starfa á fæðingardeildinni

Starfsmennirnir sex sem hafa greinst með æxlið starfa allir á fæðingardeildinni, sem er á fimmtu hæð Newton-Wellesley-sjúkrahússins. Nokkrir til viðbótar hafa orðið varir við heilsufarsvandamál.

„Við úttekt fundust engar vísbendingar um umhverfisáhættuþætti sem gætu hafa orsakað þróun heilaæxlanna,“ að því er segir í yfirlýsingu sjúkrahússins.

„Út frá niðurstöðum ítarlegrar og yfirstandandi úttektar getum við fullvissað ykkur um að engir áhættuþættir í umhverfinu hafa verið greindir,“ sagði Ellen A. Moloney, forseti sjúkrahússins, í bréfi til sjúklinga.

Samtök hjúkrunarfræðinga í Massachusetts hafa sakað sjúkrahúsið um að vinna úttektina með þeim hætti að niðurstaðan verði hliðholl sjúkrahúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert