Yrði „risastór umbun fyrir hryðjuverk“

Macron sagði í síðustu viku að Frakk­land gæti tekið það …
Macron sagði í síðustu viku að Frakk­land gæti tekið það for­dæma­lausa skref að viður­kenna palestínskt ríki. Netanjahú gagnrýnir það harðlega. Samsett mynd AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, lýsti harðri andstöðu sinni gegn viðurkenningu palestínsks ríkis í símtali við Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í morgun.

Sagði Netanjahú að viðurkenning ríkisins yrði „risastór umbun fyrir hryðjuverk“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu í Ísrael.

Frakkland gæti viðurkennt palestínskt ríki 

Í gær ræddi Macron símleiðis við Mahmúd Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar og leiðtoga Fatah-samtakanna, og hvatti í kjölfarið heimastjórnina til að taka yfir stjórn á Gasasvæðinu. Hryðjuverkasamtökin Hamas hafa verið við völd þar frá árinu 2007.

Macron kallaði eftir því að Hamas yrði afvopnað og komið frá völdum.

Einnig sagði Macron á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku að Frakkland gæti tekið það fordæmalausa skref að viðurkenna palestínskt ríki, en það vakti hörð viðbrögð meðal Ísraelsmanna.

Þjáningum borgara verður að ljúka

Macron hefur tjáð sig um símtalið á X, þar sem hann sagði hafa sagt Netanjahú að þjáningum almennra borgara á Gasasvæðinu yrði að ljúka og að aðeins vopnahlé gæti leyst ísraelska gísla úr haldi Hamas.

Þá kallaði Macron einnig eftir því að allar leiðir fyrir mannúðaraðstoð inn á Gasasvæðið yrðu opnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert