Þjóðarleiðtogar minnast Frans páfa

Frans páfi lést í morgun.
Frans páfi lést í morgun. AFP/Filippo Monteforte

Þjóðarleiðtogar margra ólíkra trúarbragða hafa sameinast í að minnast Frans páfa. Meðal þeirra sem hafa minnst hans eru forsetar stríðandi fylkinga: Úkraínu, Rússlands, Palestínu og Ísraels.

„Milljónir manna um allan heim syrgja hina dapurlegu frétt af andláti Frans páfa. Líf hans var helgað Guði, fólki og kirkjunni. Hann kunni að veita von, lina þjáningar með bæn og efla einingu,“ sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti á X.

„Hann bað fyrir friði í Úkraínu og fyrir Úkraínumönnum. Við syrgjum ásamt kaþólikkum og öllum kristnum mönnum sem litu til páfa Frans eftir andlegum stuðningi. Eilíf minning!“ sagði Selenskí.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti sendi samúðarkveðju til Vatíkansins og sagði þar Frans páfa hafa verið verndara „mannúðar og réttlætis“.

Hrósaði Pútín viðleitni páfans til að efla samræður milli rétttrúnaðarkirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar.

Ræktaði tengsl milli trúarbragða

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, minntist páfa Frans og kallaði hann „trúfastan vin palestínsku þjóðarinnar“, að því er fram kemur í frétt frá opinberri fréttastofu Palestínu, Wafa.

Sagði hann að Frans páfi hefði „viðurkennt palestínska ríkið og heimilað að palestínski fáninn væri dreginn að húni í Vatíkaninu“.

Ísraelski forsetinn Isaac Herzog minntist Frans páfa sem manns „með djúpa trú og ótakmarkaða samúð“.

„Hann sá réttilega mikilvægi þess að rækta sterk tengsl við heim gyðinga og að stuðla að samtali á milli trúarbragða sem leið til aukins skilnings og gagnkvæmrar virðingar,“ sagði forsetinn í færslu á X.

Heimsótti páfa í gær

JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, vottaði öllu kristnu fólki samúð sína eftir andlátið.

„Hjarta mitt er hjá þeim milljónum kristinna manna um allan heim sem elskuðu hann,“ skrifaði hann á X.

„Ég var ánægður með að hitta hann í gær, þótt hann væri augljóslega mjög veikur.“

Hvíta húsið hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem minningu páfa er minnst með myndum, annars vegar frá fundi Frans páfa og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, og hins vegar frá fundi J.D. Vance við Frans páfa í gær.

Veitti milljónum innblástur þvert á trúarbrögð

Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, sagði að Frans páfi hefði „veitt milljónum innblástur, langt út fyrir raðir kaþólsku kirkjunnar, með auðmýkt sinni og hreinum kærleika til þeirra sem minna mega sín“.

Forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer, sagði að Frans páfi „hefði aldrei misst vonina um betri heim“.

„Forysta hans á flóknum og krefjandi tímum fyrir heiminn og kirkjuna einkenndist af hugrekki, en kom þó alltaf frá djúpri auðmýkt,“ sagði Starmer í yfirlýsingu, en fánum verður flaggað í hálfa stöng á opinberum byggingum í Bretlandi í dag páfanum til heiðurs.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði Frans páfa ávallt hafa verið „við hlið þeirra sem eru berskjaldaðastir og viðkvæmastir“ og barist fyrir „meira réttlæti“.

Verðandi kanslari Þýskalands, Friedrich Merz, lýsti yfir „mikilli sorg“ við fréttirnar af andláti páfa og lýsti honum sem manni sem „lét leiðast af auðmýkt og trú“.

„[Páfinn] mun verða í minnum hafður fyrir óþreytandi skuldbindingu sína“ gagnvart „þeim sem minnst mega sín, fyrir réttlæti og sátt,“ sagði hann.

Mikill maður kvaddi

Forsætisráðherra Írlands, Michael Martin, lofaði samstöðu Frans páfa með „fátækum, jaðarsettum og kúguðum“.

Martin sagði meðal annars að hans yrði minnst fyrir að standa með þolendum í umræðu um barnaníðsmál innan kaþólsku kirkjunnar.

„Páfi Frans er snúinn aftur til föðurhúsanna. Þetta eru virkilega sorgleg tíðindi, því mikill maður hefur kvatt okkur,“ sagði Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, lofaði „skuldbindingu [Frans páfa] við frið, félagslegt réttlæti og þá sem standa höllum fæti“.

„Frans páfi er látinn. Góður, hlýr og næmur maður. Megi hann hvíla í friði,“ skrifaði Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands á X.

Byggði brýr samtals

„Samstarfsfólk mitt var að upplýsa mig um fréttirnar... Ég votta kristnum mönnum um allan heim samúð mína,“ sagði Esmail Baqaei, talsmaður utanríkisráðuneytis Írans.

Andlát páfa Frans „er mikill missir fyrir allan heiminn, þar sem hann var rödd friðar, kærleika og samúðar,“ sagði Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands.

Sisi vottaði samúð sína og sagði að Frans páfi hefði verið einstakur alþjóðlegur persónuleiki sem „vann ötullega að því að stuðla að umburðarlyndi og byggja brýr samtals [...] og var hann talsmaður málstaðar Palestínumanna, varði lögmæt réttindi þeirra og kallaði eftir því að átökum yrði lokið“.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sagði að hann fyndi fyrir djúpri sorg vegna andláts Frans páfa og sagði að páfinn hefði þjónað fátækum og veitt þjáðum von.

„Frans páfa mun alltaf verða minnst sem talsmanns samúðar, auðmýktar og andlegs hugrekkis af milljónum um allan heim,“ sagði Modi í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert