Að minnsta kosti 24 manns eru látnir í Kasmír-héraði á Indlandi eftir að byssumenn réðust á hóp ferðamanna. Yfirvöld á svæðinu segja um að ræða versta árás á óbreytta borgara í mörg ár.
Árásin átti sér stað í bænum Pahalgam, um 90 kílómetra frá borginni Srinagar, og var beint að ferðamönnum á svæðinu.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fordæmdi árásina harðlega og lýsti henni sem svívirðilegu ofbeldisverki. Hann hét því jafnframt að árásarmennirnir yrðu leiddir fyrir rétt.
Engin samtök hafa enn lýst yfir ábyrgð á árásinni, en samkvæmt fréttaveitunni AFP hafa vígamenn úr röðum múslímskra uppreisnarmanna lengi verið virkir í héraðinu. Þeir berjast fyrir sjálfstæði Kasmírs eða sameiningu þess við Pakistan.
Pakistan hefur stjórn á minnihluta svæðisins, en uppreisnin hefur staðið yfir frá árinu 1989.
Uppreisnarhópurinn hefur áður staðið á bak við svipaðar árásir og þá sem átti sér stað nú.
Indland hefur reglulega sakað Pakistan um að styðja við byssumenn sem standi að baki uppreisninni, en þeim ásökunum hefur Pakistan ávallt neitað og sagst einungis styðja við sjálfsákvörðunarrétt Kasmír-héraðsins.