Sver víg Betews af sér

Stig Millehaugen ræðir væntanlega bók sína við norska ríkisútvarpið NRK …
Stig Millehaugen ræðir væntanlega bók sína við norska ríkisútvarpið NRK árið 2023. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir NRK

Ný gögn hafa skotið upp kollinum við rannsókn lögreglunnar í Ósló á vígi NOKAS-ræningjans Metkels Betews þar í borginni á skírdag, en eins og mbl.is fjallaði um í kjölfar atburðarins bárust böndin þegar að síbrotamanninum Stig Millehaugen sem grunur féll á nánast samdægurs þar sem hann var einmitt í dagsleyfi frá Berg-fangelsinu í Tønsberg þegar Betew mætti örlögum sínum.

Var afplánunin í Berg raunar fyrir annað manndráp, en Millehaugen sat þar með 21 árs dóm sem hann hlaut árið 2012 fyr­ir að myrða leiðtoga glæpaklík­unn­ar Young Guns, Mohammad „Jeddi“ Javed, eft­ir pönt­un snemmárs 2009.

Bjó Millehaugen á áfanga­heim­ili er hann myrti Javed og var á reynslu­lausn eft­ir að hafa afplánað sautján ára dóm fyr­ir að skjóta fanga­vörð í fang­els­inu í Sarps­borg til bana árið 1992 í kjöl­far þess er skamm­byssu var laumað til hans inn um klefa­glugga hans. Reynist tilgáta lögreglu varðandi dráp Betews á rökum reist hefur Millehaugen því myrt þrjá menn og verið á reynslulausn og í dagsleyfi frá manndrápsdómum er hann myrti síðustu tvö fórnarlömb sín.

Vinnur að bók um hina þyngst dæmdu

Skýring er hins vegar fundin á því hvers vegna Millehaugen átti fund með Betew í Godlia-skóginum í Oppsal-hverfinu í Ósló að kvöldi skírdags.

Vinnur síbrotamaðurinn að bók um líf og aðstæður þeirra afbrotamanna sem hlotið hafa „forvaring“ (bókstaflega varðveisla)-dóma í norsku réttarkerfi, dóma sem eru þess eðlis að hægt er að framlengja afplánunartíma í nokkurra ára þrepum í einu, án nýrra réttarhalda, þyki að geðfróðra manna yfirsýn ekki óhætt að hleypa hinum dæmda út í mannlegt samfélag á ný, svo sem vegna hættu á því að hann brjóti af sér að nýju. Er fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik í hópi norskra stórglæpamanna er hlotið hafa slíkan dóm.

Metkel Betew, sem sat í fangelsi meira en hálfa ævi …
Metkel Betew, sem sat í fangelsi meira en hálfa ævi sína, meðal annars fyrir hið annálaða NOKAS-rán í Stavanger vorið 2004, var myrtur á skírdag og berast böndin að Stig Millehaugen. Ljósmynd/Norska lögreglan

Ber bókin titilinn „Forvaring fra innsiden“, „Varðveisla innan frá“ og hefur Millehaugen rætt við fjölda dæmdra afbrotamanna vegna vinnslu hennar. Sá hafi verið tilgangurinn með fundinum með Betew heitnum sem Millehaugen þverneitar að hafa skaðað á nokkurn hátt. Var hann handtekinn á páskadag og er nú grunaður um manndráp eða samverknað við manndráp hvað Betew áhrærir.

Hlaut styrk til ritstarfanna

Hefur málið hlotið þjóðarathygli í Noregi þar sem Betew var einn þekktasti – og best liðni – afbrotamaður Noregs allt frá því þeir ellefumenningarnir frömdu NOKAS-ránið í Stavanger í apríl 2004, stærsta bankarán sem framið hefur verið á Norðurlöndum hvað ránsfenginn snertir, 57,4 milljónir norskra króna sem enn í dag hafa ekki fundist.

Hefur Millehaugen hlotið opinberan styrk til ritunar bókar sinnar og setið löngum stundum við skrif í Litteraturhuset í Ósló, en það staðfestu starfsmenn þess við norska dagblaðið VG fyrir skemmstu.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka