Leiðtogar þýska þjóðernisflokksins AfD (Alternative für Deutschland) gagnrýna harðlega þá ákvörðun leyniþjónustu landsins að skilgreina flokkinn sem öfgahægrihreyfingu, líkt og greint var frá í morgun.
Í yfirlýsingu sem flokksleiðtogarnir Alice Weidel og Tino Chrupalla, sendu frá sér sögðu þeir að ákvörðunin væri „þungt högg fyrir lýðræðið“ og að flokkurinn myndi leita réttar síns.
„Nú er opinberlega búið að sverta AfD sem stjórnarandstöðuflokk og við látin líta út fyrir að vera glæpasamtök,“ sögðu þeir í sameiginlegri yfirlýsingu og bættu við að þessi ákvörðun væri „augljóslega pólitískt drifin“.
Í tilkynningu frá þýsku leyniþjónustunni segir að AfD vanvirði ákveðna þjóðfélagshópa í Þýskalandi og brjóti gegn mannlegri reisn þeirra. Þá var bent á fjandsamlegt viðhorf flokksins gagnvart innflytjendum og mótmælendum.
Með skilgreiningunni fá yfirvöld auknar heimildir til þess að fylgjast með starfsemi hans t.a.m. með símahlerunum og notkun uppljóstrara.