Fleiri daga þarf til að greina orsök rafmagnsleysisins

Frá rafmagnsleysinu á Spáni fyrir viku.
Frá rafmagnsleysinu á Spáni fyrir viku. AFP

„Nokkra daga til viðbótar“ þarf til að greina hvað olli rafmagnsleysi á Íberíuskaga á mánudag, að sögn spænskra yfirvalda. 

Sara Aagesen umhverfismálaráðherra sagði í samtali við spænska fjölmiðilinn El Pais að „allar tilgátur“ væru til skoðunar, meðal annars möguleg netárás. For­svars­menn spænska raf­orku­kerf­is­ins úti­lokuðu fljótlega að um netárás hefði verið að ræða. 

Aagesen sagði að verið væri að skoða hvort að nýjar sólarsellur sem komið var fyrir í suðurhluta Spánar hefðu getað valdið ójafnvægi í raforkukerfinu. Raforkufyrirtækið Red Electrica hefur nefnt það sem mögulega ástæðu. 

„Við vitum að þær hættu að virka í rafmagnsleysinu,“ sagði hún og bætti við fyrirvara um að óábyrgt væri þó að kenna endurnýjanlegum orkugjöfum um atvikið. 

Sara Aagesen umhverfismálaráðherra.
Sara Aagesen umhverfismálaráðherra. AFP

Rafmagnsleysið lamaði algjörlega samfélag Spánar. Síma- og netsambandi sló út, lestarkerfið lá niðri og hundruð manna festust í lyftum. 

Sérfræðingar hafa velt því fyrir sér hvort jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar í raforkukerfinu hafi raskast. 

Aagesen sagði að Spánn hefði lengi notast við endurnýjanlega orkugjafa og hafnaði þeirri kenningu að „of mikið magn endurnýjanlegrar orku“ hefði valdið rafmagnsleysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert