Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst leggja 100 prósenta toll á allar kvikmyndir sem eru framleiddar erlendis.
Frá þessu greinir Trump í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social. Hann segir að kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum sé að deyja út og að önnur lönd reyni að lokka kvikmyndagerðarmenn í burtu frá Bandaríkjunum.
„Kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum er dauðvona. Önnur lönd bjóða upp á alls kyns hvata til að draga kvikmyndagerðarmenn og kvikmyndaver frá Bandaríkjunum. Þetta er samstillt átak annarra landa og því ógn við þjóðaröryggi,“ skrifar forsetinn.
Hann hefur beðið viðskiptaráðuneytið um að hefja þegar í stað vinnu við að leggja 100 prósenta toll á allar kvikmyndir sem framleiddar eru erlendis og koma til Bandaríkjanna.
Ekki er ljóst hvernig gjaldskráin verður útfærð í reynd eða hvenær hún tekur gildi.