Breskum yfirvöldum tókst naumlega að afstýra yfirvofandi hryðjuverkaárás á breskri grundu um helgina.
The Telegraph greinir frá þessu en samkvæmt heimildum miðilsins voru aðeins nokkrar klukkustundir í að árásin ætti að eiga sér stað þegar fimm menn voru handteknir vegna málsins á laugardag.
Fjórir mannanna eru frá Íran en þeir voru handteknir víða um Bretland. Innanríkisráðuneytið hefur lýst aðgerðinni sem einni þeirri veigamestu gegn hryðjuverkaógn á síðari árum.
Þá hafa þrír íranskir karlmenn til viðbótar verið handeknir í Lundúnum grunaðir um að tengjast málinu.
Þeir menn voru handteknir undir ákvæði í þjóðaröryggislögum Breta, sem heimilar lögreglumönnum að handtaka einstaklinga vegna rökstudds gruns um að vera þátttakendur í „ógnunarstarfsemi erlendra ríkja“.
Talið er að árásamennirnir fimm hafi stefnt á að ráðast á „ákveðið húsnæði“ en kenningar eru uppi um að skotmarkið hafi verið bænahús gyðinga eða aðrar byggingar sem tengjast gyðingdómi.
Yvette Cooper, innanríkisráðherra Bretlands, gaf út yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem hún sagði: „Um var að ræða tvær stórar aðgerðir sem endurspegla einhverjar stærstu ógnir gegn ríkinu og aðgerðir gegn hryðjuverkum sem við höfum séð á undanförnum árum.“
Spurð um hugsanleg tengsl við íranska ríkið sagði ráðherrann: „Þetta eru miklar aðgerðir sem hafa átt sér stað og rannsóknin sem stendur nú yfir er afar mikilvæg og að sjálfsögðu felur hún í sér að íranskir ríkisborgarar eiga hlut að máli í báðum rannsóknunum. Við styðjum lögregluna og öryggisstofnanir í þessari rannsókn.“