Ísraelski herinn segist í yfirlýsingu hafa gert flugvöllinn í Jemen „algerlega óvirkan“, í hefndarskyni fyrir eldflaugaárás Húta á alþjóðaflugvöll Ísraels.
Herþotur gerðu árás á Sanaa, höfuðborg Jemen sem er í höndum uppreisnarmanna Húta, sem njóta stuðnings frá Íran.
Segir í yfirlýsingu frá ísraelska hernum að Hútar hafi notað flugvöllinn til að flytja vopn og verkamenn og að flugbrautir, flugvélar og innviðir á flugvellinum hafi skemmst í árásinni ásamt þremur orkuverum í höfuðborginni og steypuverksmiðju í Amran.
Skömmu fyrir árásina birti ísraelski herinn færslu á X þar sem óbreyttir borgarar voru hvattir til að flýja flugvöllinn og halda sig frá svæðinu.
„Ef þið yfirgefið ekki svæðið eruð þið í hættu,“ skrifaði Avichay Adraee, talsmaður hersins, á arabísku.
Ísrael réðst einnig á aðra steypuverksmiðju og skipahöfn í Hodeida í gær. Að minnsta kosti fjórir létust í þeirri árás og 35 slösuðust.
Hútar kenna Ísrael og Bandaríkjunum um allar nýlegar árásir. Ísrael hefur tekið ábyrgð en Bandaríkin neita fyrir að hafa tekið nokkurn þátt í árásum gærdagsins.