Evrópusambandið hefur hvatt Indland og Pakistan til að grípa tafarlaust til aðgerða sem draga úr spennu milli ríkjanna, í kjölfar mannskæðustu árása þeirra hvort á annað í yfir tvo áratugi. Fjöldi þjóða hefur lýst yfir áhyggjum vegna þeirrar hættulegu stöðu sem nú er uppi.
Samkvæmt fréttum létust 26 manns og 46 slösuðust í eldflaugaárásum sem Indland framkvæmdi í gærkvöldi á svæði í Kasmír-héraði sem er undir stjórn Pakistans.
Pakistan svaraði árásunum í nótt og hafa að minnsta kosti 12 indverskir ríkisborgarar fallið í indverska hluta Kasmír-héraðs.
Í samtali við blaðamenn sagði talsmaður utanríkismála Evrópusambandsins, Anouar El Anouni, að sambandið hvetji ríkin eindregið til stillingar. Hann lagði jafnframt áherslu á nauðsyn þess að leysa deilu landanna með samningsbundnum og friðsamlegum hætti, sem skili varanlegri lausn.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði á þinginu í morgun að bresk stjórnvöld ættu í samskiptum við bæði Indland og Pakistan. Þá hvatti hann til samræðna og spennulækkunar. Starmer benti einnig á að ástandið valdi miklum áhyggjum meðal margra íbúa Bretlands, en þar búa margir sem eiga rætur að rekja til ríkjanna tveggja.
Á blaðamannafundi í París fyrr í dag lýstu Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, yfir miklum áhyggjum af stöðunni.
„Við höfum miklar áhyggjur af átökum síðustu nætur milli þessara tveggja kjarnorkuvelda,“ sagði Merz og bætti við að nú væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr að bregðast við með skynsemi og yfirvegun.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Afganistans er hvatt til stillingar og friðsamlegra samræðna milli ríkjanna. Frekari stigmögnun væri ekki í þágu Kasmír-héraðs.
Einnig hefur Íran lýst yfir miklum áhyggjum af stöðunni. Esmail Baqaei, talsmaður utanríkisráðuneytis landsins, hvatti bæði Indland og Pakistan til að sýna stillingu.