Búast við 27 erlendum þjóðarleiðtogum í Moskvu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Hátt í þrjátíu erlendir þjóðarleiðtogar verða viðstaddir hátíðarhöld í Moskvu á Sigurdaginn þegar sigur bandamanna á Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni verður fagnað.

Áttatíu ár verða þá liðin frá því að uppgjafarsáttmálinn var undirritaður.

Heimsókn við Moskvu sé stuðningsyfirlýsing

Sigurdagurinn er haldinn 9. maí ár hvert í Rússlandi og hafa 27 leiðtogar boðað komu sína í rússnesku höfuðborgina. Á sama tíma vill Evrópa einangra rússneska forsetann og koma í veg fyrir að hann myndi sterk tengsl við aðra þjóðarleiðtoga.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur sagt þátttöku í hátíðarhöldunum jafnast á við stuðningsyfirlýsingu við innrásarstríð Rússa í Úkraínu.

29 þjóðarleiðtogar höfðu boðað komu sína en forsetar Aserbaísjan og Laos hafa afboðað sig.

Styrkja tengsl Kína og Rússlands

Á meðal gesta Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta verða Forseti Kína Xi Jinping og forseti Brasilíu Luiz Inacio Lula da Silva. Xi verður í sérstakri ríkisheimsókn í Moskvu þar sem hann mun halda fundi með Pútín til að styrkja tengsl ríkjanna.

Þá verða m.a. þjóðarleiðtogar Armeníu, Kasakstan, Hvíta-Rússlandi, Víetnam, Mongólíu, Egyptalands og Mjanmar viðstaddir hátíðarhöldin. Frá Afríku koma þjóðarleiðtogar Búrkína Fasó, Simbabve, Lýðstjórnarveldinu Kongó, Eþíópíu, og Gíneu.

Helstu bandamenn Rússa í Suður-Ameríku verða einnig viðstaddir, það eru Nicolas Maduro, forseti Venesúela, og Miguel Diaz-Calen, forseti kommúnistastjórnarinnar á Kúbu.

Narendra Modi hafði boðað komu sína en vegna þess hve spennan á milli Pakistans og Indlands fer stigmagnandi mun hann ekki mæta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka