Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti stjórnvöld í Indlandi og Pakistan til að komast að sáttum svo koma megi í veg fyrir frekari átök milli ríkjanna í dag. Kveðst forsetinn vilja aðstoða ríkin til að ná sáttum.
„Þetta er svo hræðilegt. Ég kann vel við báða aðila og vil sjá þá leysa þetta. Ég vil sjá þá hætta,“ sagði Trump í dag um átök Indlands og Pakistans.
Stjórnvöld á Indlandi hófu í gær flugskeytaárásir á níu svæði í Pakistan, ýmist innan landamæra Pakistans eða á yfirráðasvæði Pakistans í Kasmírhéraði. Á fimmta tug eru sagðir hafa látið lífið í árásunum.
Indland og Pakistan hafa átt í áralangri deilu en samband ríkjanna hefur farið versnandi að undanförnu eftir banvæna hryðjuverkaárás á ferðamenn á yfirráðasvæði Indlands í Kasmír. Indversk stjórnvöld segja pakistönsk stjórnvöld bera ábyrgð á árásinni en pakistönsk stjórnvöld neita því.
Pakistan hefur lengi verið mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna í hernaðarmálum en Trump hefur upp á síðkastið reynt að efla samband sitt við Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Hann kom t.a.m. í opinbera heimsókn í Hvíta húsið í febrúar.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er einnig sagður hafa rætt við starfsbræður sína á Indlandi og í Pakistan og hvatti þá til friðar.
„Ef ég get gert eitthvað til að hjálpa er ég til staðar,“ sagði Trump.