Trump semur við Breta

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í dag að Bandaríkin og Bretland hefðu komist að samkomulagi um tollamál.

Þetta er fyrsti slíki samningurinn sem Trump gerir frá því hann tilkynnti um umfangsmikla tolla á öll ríki heims.

„Ég er í skýjunum með að greina frá því að hafa náð tímamótasamningi við Bretland,“ sagði Trump við blaðamenn á fundi í Hvíta húsinu þar sem samningurinn var kynntur.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Hann sagði að um sögulegan dag væri að ræða.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá samkomulaginu í Hvíta húsinu …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá samkomulaginu í Hvíta húsinu í dag. AFP

Varðar kjöt, etanól og landbúnaðarafurðir

Samkomulagið lýtur að útflutningi Bandaríkjanna á nautakjöti, etanóli og öðrum landbúnaðarafurðum að sögn Trump.

Hann sagði enn fremur að Starmer hefði verið „frábær“ og að hið sérstaka samband þjóðanna myndi brátt verða sterkara en nokkru sinni fyrr.

Starmer sagði að samningurinn myndi auka viðskipti og skapa störf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka