Hamas láta bandarískan gísl af hendi

Edan Alexander, gísl í haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna.
Edan Alexander, gísl í haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna. AFP

Hamas-hryðjuverkasamtökin segjast tilbúin að leysa ísraelsk-bandaríska hermanninn Edan Alexander úr gíslingu til að greiða veginn fyrir vopnahléi á Gasaströndinni. Næstu klukkustundir gætu verið afgerandi í sambandi við vopnahlé á Gasa, að sögn Hamas, sem hafa fundað með Bandaríkjamönnum um helgina.

Khalil al-Hayya, háttsettur Hamas-liði, segir í yfirlýsingu að Alexander verði látinn laus en samtökin sögðu fyrr í dag að framfarir hefðu orðið í viðræðum við Bandaríkin um vopnahlé á Gasasvæðinu.

Í apríl birtu Hamas-samtökin mynd­band af Alexander úr gíslingu þar sem hann gagn­rýn­di Benja­mín Netanja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, og ísra­elsku rík­is­stjórn­ina fyr­ir að hafa ekki tryggt lausn sína.

Netanjahú segir í yfirlýsingu að árásir á Gasa muni ekki hætta þrátt fyrir lausn Alexanders.

Trump lendir á þriðjudag

BBC hefur eftir háttsettum embættismanni innan Hamas að næstu klukkustundir verði afgerandi um hvort samkomulag náist um vopnahlé á Gasa.

Fulltrúar Hamas og Bandaríkjanna hafa síðustu daga fundað í Doha, höfuðborg Katar. Árásir Ísraela halda þó ótrauðar áfram í Palestínu.

AFP hafði fyrr í dag eftir háttsettum embættismanni innan Hamas að viðræðurnar hafi snert á vopnahléi, fangaskiptum og veitingu neyðaraðstoðar á Gasa. Þá bætti embættismaðurinn við að viðræðurnar myndu halda áfram. 

Hamas-samtökin hafa áður sagst aðeins ætla að samþykkja samkomulag sem fæli í sér stríðslok en slíku hefur Netanjahú ítrekað hafnað.

Á þriðjudag mun Donald Trump Bandaríkjaforseti lenda í Ísrael en Ísraelsmenn hafa heitið því að auka hernaðaraðgerðir sínar gegn Hamas ef ekkert samkomulag næst að lokinni heimsókn Bandaríkjaforseta.

Neita að mannúðarkrísa sé á svæðinu

Greint hefur verið frá að matur og bensín sé af skornum skammti á Gasasvæðinu og hafa viðbragðsaðilar sagt að öll starfsemi þeirra sé nánast stopp, en tveir mánuðir eru síðan Ísraelar bönnuðu allan innflutning á nauðsynjum inn á svæðið.

Ísraelsk stjórnvöld neita að alvarleg mannúðarkrísa sé að skapast á …
Ísraelsk stjórnvöld neita að alvarleg mannúðarkrísa sé að skapast á Gasasvæðinu og hyggjast útvíkka hernaðaraðgerðir sínar. AFP

Ísraelsk stjórnvöld neita þó að alvarleg mannúðarkrísa sé að skapast á svæðinu og hyggjast útvíkka hernaðaraðgerðir sínar til að þvinga Hamas til að láta þá gísla lausa sem hefur verið haldið þar síðan hryðjuverkasamtökin réðust á Ísrael í október 2023.

Gerðu loftárás á tjaldsvæði flóttamanna

Að minnsta kosti 12 manns létust á Gasasvæðinu í dag eftir loftárásir Ísraela, þar á meðal börn á aldrinum tveggja til fimm ára. 

Samkvæmt talsmanni almannavarna á svæðinu, Mahmud Bassal, gerði ísraelski herinn m.a. loftárás á tjaldsvæði í borginni Khan Yunis, þar sem tugir flóttamanna höfðu leitað skjóls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert