Mexíkó hefur höfðað mál gegn bandaríska tæknirisanum Google eftir að fyrirtækið hunsaði ítrekaðar beiðnir landsins um að endurnefna ekki Mexíkóflóa sem Ameríkuflóa fyrir bandaríska notendur á Google Maps.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Nafnabreyting flóans í forritinu er til komin vegna tilskipunar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.
Síðastliðinn fimmtudag samþykkti svo fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, að nefna flóann formlega Ameríkuflóa fyrir alríkisstofnanir.
Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, hefur haldið því fram að Bandaríkin hafi ekki vald til að endurnefna allan flóann, og segir nafnabreytinguna einungis eiga við þann hluta sem tilheyrir Bandaríkjunum.
Forsetinn skrifaði Google bréf í janúar þar sem fyrirtækið var hvatt til að endurskoða ákvörðun sína. Mánuði síðar hótaði hún lögsókn sem nú hefur verið gerð að veruleika eftir að engin svör bárust frá fyrirtækinu.
Google hefur áður sagt að notendur í Mexíkó muni áfram sjá nafnið Mexíkóflói, en notendur utan Bandaríkjanna og Mexíkó, til dæmis á Íslandi, muni sjá bæði nöfnin, en þá væri Ameríkuflói innan sviga.
Greinilegt er að nafnabreytingu Trumps virðist fylgja einhver barningur en þess ber að geta að fréttastofan Associated Press (AP) neitaði að nota nafnið Ameríkuflói eftir tilskipun forsetans.
Leiddi það til nokkurra mánaða átaka við Hvíta húsið, sem takmarkaði aðgang fréttastofunnar að ákveðnum viðburðum.
Var það svo í apríl þar sem alríkisdómari skarst inn í leikinn og fyrirskipaði Hvíta húsinu að hætta að útiloka fréttastofuna.