Leggja niður vopn og leysa PKK upp

Kúrdísk kona veifar fána með mynd af Abdullah Öcalan, leiðtoga …
Kúrdísk kona veifar fána með mynd af Abdullah Öcalan, leiðtoga PKK. Tekin hefur verið ákvörðun um að leysa flokkinn upp. AFP/Shwan Mohammed

Ákveðið hefur verið að leysa upp verkamannaflokk Kúrdistan (PKK), sem barist hefur í yfir 40 ár við Tyrki fyrir sjálfstæðu kúrdísku ríki.

AFP-fréttaveitan greinir frá.

Ákvörðunina má rekja til og er í samræmi við vilja Abdullah Öcalan, leiðtoga PKK, frá því í febrúar en Öcalan hefur setið í fangelsi í Tyrklandi frá árinu 1999.

Erdogan var sannspár

Öcalan hefur þó áfram verið æðsti leiðtogi og hugmyndasmiður samtakanna. Hann hafði hvatt PKK til að leggja niður vopn og staðfesta ákvörðunina formlega á flokksþingi.

„12. PKK-flokksþingið hefur ákveðið að leysa upp skipulag PKK og leggja niður vopn,“ sagði í yfirlýsingu PKK að loknu flokksþinginu í síðustu viku.

Í ræðu sinni á laugardag ýjaði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti að því að fréttir væru væntanlegar af þessu meiði frá PKK. Bætti hann því við að ríkisstjórn hans væri staðráðin í að bjarga Tyrklandi úr klóm hryðjuverkamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert