Macron segist ekki hafa tekið kókaín

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir það lygi að hann hafi tekið …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir það lygi að hann hafi tekið kókaín í lest. AFP/Ludovic Marin

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir ekkert til í því að hann hafi tekið kókaín í lest ásamt Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, og Friedrich Merz, kanslara Þýskalands.

Samsæriskenningasmiðurinn Alex Jones birti myndband á samfélagsmiðlinum X, þar sem Macron heldur á hvítum hlut sem Jones segir að innihaldi kókaín.

Myndir sem fréttamenn tóku í lestinni sýna hins vegar að um servíettu var að ræða sem Macron notaði til þess að snýta sér.

Lygum sem þessum er að sögn Macrons dreift af óvinum Frakklands en á meðal þeirra sem hafa deilt upprunalegu færslu Jones á X er upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis Rússlands.

Jean-Noel Barrot utanríkisráðherra Frakklands segir að Rússar séu farnir að verða örvæntingarfullir í tilraunum sínum að koma í veg fyrir að friður náist í Úkraínu. Það endurspeglist í því að ráðamenn Rússlands dreifi augljósum lygum sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert