Selenskí vill hafa Trump viðstaddan

Til stendur að Pútín og Selenskí eigi fund í Istanbúl …
Til stendur að Pútín og Selenskí eigi fund í Istanbúl á fimmtudag. AFP/Photo by Gavriil Gricorov and Nhac Nguyen

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti vill endilega að Bandaríkjaforseti verði viðstaddur mögulegar friðarviðræður Úkraínumanna og Rússa í Istanbúl á fimmtudag.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði sjálfur á blaðamannafundi fyrr í dag að hann íhugaði að fara til Tyrklands til að vera viðstaddur viðræðurnar, ef hann teldi að eitthvað gerðist.

„Auðvitað, við Úkraínumenn kunnum að meta það ef Trump forseti getur verið með okkur á fundinum,“ skrifar Selenskí í færslu á samfélagsmiðlinum X.

Trump telur Rússa samþykkja vopnahlé

Pútín lagði það til í ræðu í Kreml í gær­morg­un að bein­ar samn­ingaviðræður á milli Rúss­lands og Úkraínu yrðu haldn­ar í Ist­an­búl á næstu dög­um. Hann minnt­ist þó ekk­ert á til­lögu Evr­ópu­ríkja um 30 daga vopna­hlé, sem hefði þá átt að hefjast í dag.

Selenskí þáði engu að síður boð Pútíns og sagði í færslu á X í gær að hann myndi bíða eftir Rússlandsforseta í Istanbúl á fimmtudag. 

„Við bíðum eft­ir löngu og var­an­legu vopna­hlé, frá og með morg­un­deg­in­um,“ skrifaði Selenskí og bæt­ti við að það væri til­gangs­laust að halda „slátr­un­inni“ áfram.

„Og ég mun bíða eft­ir Pútín í Tyrklandi á fimmtu­dag. Per­sónu­lega.“

Trump var spurður út í það hvort hann myndi beita Rússa refsiaðgerðum ef Pútín samþykkti ekki 30 daga vopna­hlé. Hann svaraði því ekki beint en sagðist hafa þá til­finn­ingu að Rúss­ar myndu samþykkja það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert