Þrír Íslendingar handteknir á Spáni

Hópurinn var á leið til eyjunnar Ibiza.
Hópurinn var á leið til eyjunnar Ibiza. Unsplash/Michael Tomlinson

Þrír Íslendingar voru handteknir í bænum La Vila Joiosa á Spáni í lok mars fyrir að reyna að smygla fíkniefnum til eyjunnar Ibiza.

Spænski miðillinn TodoAlicante greinir frá þessu en í umfjölluninni kemur fram að Íslendingarnir, tvær konur og einn karlmaður, séu á aldrinum 24 - 48 ára. Þau voru handtekin eftir að nokkrar tegundir fíkniefna fundust í bifreið þeirra þegar þau reyndu að komast með hana um borð í ferju til Ibiza.

Stressið kom upp um bílstjórann

Dómstóll á Spáni hefur fyrirskipað að Íslendingarnir þrír fái að ganga lausir gegn tryggingu.

Í umfjöllun TodoAlicante kemur fram að bílstjóri bifreiðarinnar hafi greinilega verið mjög taugaóstyrkur þegar hann var stoppaður af lögreglu á hraðbraut á La Marina-svæðinu og sagst vera að flýta sér til að ná ferju til Ibiza.

Vegna þessarar grunsamlegu hegðunar ákvað lögreglan að gera leit í bílnum og kom í ljós að þar var að finna nokkrar glerkrukkur af marijúana, nokkra poka af kókaíni, hassi, metamfetamíni og bláu dufti.

Þá fundust sömuleiðis fíkniefni falin í klæðnaði kvennanna tveggja en samtals var um að ræða meira en 485 grömm af fíkniefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert