Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagði í tilkynningu í dag að hann myndi láta lækka lyfjaverð í Bandaríkjunum um 59 prósent.
„Lyfjaverð lækkar um 59 prósent plús! Eldsneyti, orka, matvörur og allir aðrir kostnaðarliðir lækka. Engin verðbólga!!!“ skrifaði Trump á samfélagsmiðla í kjölfar tilkynningarinnar.
Tilkynningin kemur fram eftir að hann sagðist á sunnudag ætla að lækka verð á lyfseðilsskyldum lyfjum „næstum samstundis" á milli 30-80 prósent.
Bætti hann einnig við að hann muni skrifa undir forsetatilskipun nú í dag.
Til viðbótar við þessa breytingu ætlar Trump að setja á svokallaða „bestu kjarareglu“ sem passar upp á að lyf sem seld eru í Bandaríkjunum verði á pari við lægsta verð á sömu lyfjum annars staðar í heiminum.
Sagði hann jafnframt að lækkunin á kostnaði lyfjanna gæti valdið hækkunum á kostnaði í öðrum löndum.
„Bestu kjarareglan“ er regla á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunar sem hefur það markmið að draga úr mismunun milli landa og viðskiptaaðila þeirra. Þetta er gert til að koma á jöfnum samkeppnisskilyrðum í alþjóðaviðskiptum.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Donald Trump hefur reynt að lækka lyfjakostnað í Bandaríkjunum en það reyndi hann fyrst á sínu fyrsta kjörtímabili árin 2017-2021.
Þá lenti hann í miklu mótlæti frá lyfjaiðnaðinum og fór það því ekki í gegn þá.
Í síðasta mánuði undirritaði forsetinn framkvæmdatilskipun til þess að lækka lyfjaverð og veita ríkjum meira svigrúm til að leita af hagstæðum verðum erlendis og bæta samningarferlið við verðlagningu á lyfjum.