Forsætisráðherra Indlands hefur gefið út að landið muni ekki umbera „kjarnorkukúgun“. Á sama tíma segir Bandaríkaforseti sig hafa komið í veg fyrir kjarnorkustríð á milli Indlands og Pakistans.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hét því fyrr í dag í sjónvarpsávarpi að hann muni bregðast hart við öllum framtíðar „hryðjuverkaárásum“. Vopnahlé í skæðum áttökum Indlands og Pakistans hófst fyrir helgi en bæði ríki búa yfir kjarnavopnum.
„Ef önnur hryðjuverkaárás verður gerð gegn Indlandi, mun henni verða svarað af hörku,“ sagði Modi í ávarpi sínu til indversku þjóðarinnar og bætti við að indversk stjórnvöld myndu ekki umbera „kjarnorkukúgun“ ef til átaka kæmi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði átök kjarnorkuveldanna tveggja að umtalsefni á blaðamannafundi fyrr í dag en þar sagði hann afskipti Bandaríkjanna af vopnahlésviðræðum milli Indlands og Pakistans hafa komið í veg fyrir „slæmt kjarnorkustríð“.
„Við stöðvuðum kjarnorkuátök. Ég held að þetta hefði getað orðið slæmt kjarnorkustríð, milljónir manna hefðu getað látið lífið. Þannig að ég er mjög stoltur af því,“ sagði Trump við blaðamenn í Hvíta húsinu.