Sautján manns hafa látið lífið í Norður-Indlandi eftir landadrykkju. Sex til viðbótar eru þungt haldin. Þetta segir lögreglustjórinn Maninder Singh í Amritsar, höfuðborg Púnjabi-héraðs.
Dauðsföllin áttu sér stað í fimm þorpum í héraðinu. Málið er ekki einsdæmi í Indlandi, þar sem hundruðir deyja árlega eftir að hafa innbyrt ódýrt heimabrugg.
Algengt er að metanóli sé bætt út í áfengið en slíkt getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Fólk hefur misst sjónina, hlotið skaða á lifrinni og dáið í kjölfar landadrykkju. Í fyrra dóu fimmtíu og þrír í sambærilegu máli í Tamil Nadu í Suður-Indlandi.
Æðsti ráðamaður Púnjab-héraðsins, Bhagwant Mann, hefur heitið því að landabruggurunum verði refsað. Níu hafa þegar verið handtekin í kjölfar dauðsfallanna, samkvæmt lögregluembætti héraðsins.