Jarðskjálftahrina vekur ótta íbúa

Eldfjallið Vesúvíus er við borgina Napólí.
Eldfjallið Vesúvíus er við borgina Napólí. Ljósmynd/Wikipedia.org

Jarðskjálfti að stærð 4,4 reið yfir í nágrenni við borgina Napólí á Ítalíu fyrr í dag. Skjálftinn er hluti af stærri hrinu sem hefur valdið áhyggjum íbúa sem óttast mögulega eldvirkni á svæðinu.

Skjálftinn átti sér stað á Campi Flegrei-svæðinu á Suður-Ítalíu klukkan 12.07 að staðartíma á þriggja kílómetra dýpi. Á undan honum komu tveir skjálftar að stærð 2,1 og 15 mínútum síðar fylgdi annar að stærð 3,5.

„Stór jarðskjálftahrina stendur yfir,“ skrifaði Gigi Manzoni, borgarstjóri Pozzuoli sem er í nágrenni við Napólí, á samfélagsmiðlum.

Hann sagði að þetta hefði „óhjákvæmilega hrætt íbúa“ en hvatti alla til að halda ró sinni og halda sig á opnum svæðum.

Fylgjast með ástandinu

Neðanjarðarlesta- og kláfakerfi Napólíborgar hefur verið stöðvað í varúðarskyni en engar tilkynningar um tjón eða meiðsl vegna skjálftans hafa borist viðbragðsaðilum.

Jarðskjálftavirkni er ekki ný af nálinni á þessu svæði, sem er stærsti virki sigketill í Evrópu en skjálftahrinan hefur vakið ugg meðal íbúa.

„Við höldum áfram að fylgjast með ástandinu mínútu fyrir mínútu, en við verðum að forðast óþarfa uppnám – gögnin benda ekki til þróunar til að hafa áhyggjur af,“ sagði Mauro Di Vito, forstjóri Jarðeðlisfræði- og eldfjallafræðistofnunar Ítalíu, við fréttastofuna AGI fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert